Fjárfestingarfyrirtæki auðjöfursins Warren Buffett, Berkshire Hathaway, hefur selt 3,7 milljarða dala hlut sinn í olíufyrirtækinu Exxon Mobil group, að því er segir í frétt Business Day. Fallandi olíuverð hefur haft neikvæð áhrif á afkomu fyrirtækisins, sem og annarra olíufyrirtækja.

Í fréttinni er vitnað í Fadel Gheit, sérfræðings hjá Oppenheimer & Co. í New York, sem segir að Buffett hafi ekki alltaf náð sama árangri í fjárfestingum í orkugeiranum og í öðrum fjárfestingum. Honum tókst reyndar að græða 3,7 milljarða dala árið 2007 með fjárfestingu í kínverska olíufyrirtækinu PetroChina, en tapaði töluverðum fjárhæðum á fjárfestingum í ConocoPhilips árið 2008 og Energy Future Holdings.

Þegar Berkshire Hathaway keypti hlutinn í Exxon árið 2013 var gengi hlutabréfa félagsins 90,86 dalir, en á þeim þremur mánuðum sem hann seldi hlutinn var meðalgengið 93,27 dalir. Það er því líklegt að Berkshire hafi ekki tapað á fjárfestingunni, en hagnaðurinn hefur ekki verið mikill.