Milljarðamæringurinn bandaríski, Warren Buffett, hefur undanfarna mánuði og misseri barist fyrir því að hinir efnamestu í Bandaríkjunum greiði hærra hlutfall tekna sinna í skatt. Á að ná því markmiði m.a. með því að hækka skatta á fjármagnstekjur og arðgreiðslur, a.m.k. þegar þær fara yfir ákveðið mark.

Í Wall Street Journal kemur hins vegar fram að verði þessar tillögur, sem saman hafa fengið nafnið „Buffett-reglan“, munu ekki bitna hart á Buffett sjálfum. Skattur á arðgreiðslur mun ekki hafa nein áhrif á hann, því fyrirtækið hans, Berkshire Hathaway, greiðir ekki arð. Hvað varðar skatt á fjármagnstekjur hefur Buffett sjálfur sagt að hann muni færa auð sinn að stóru leyti í sjálfseignarstofnanir og í góðgerðasjóð Bill Gates. Hann mun því greiða lítinn fjármagnstekjuskatt.