Bandaríski fjárfestirinn Warren Buffet hefur skellt skuldinni á fjárfestingabanka fyrir að hafa valdið hruninu með fjármálagjörninga á bandaríska undirmálslánamarkaðnum.

Buffet, einnig þekktur sem "Spámaðurinn frá Omaha", gaf til kynna í ræðu sem hann flutti í Toronto á miðvikudaginn, að bankageirinn gæti aðeins sjálfum sér um kennt vegna þeirra vandræða sem ríkt hafa á fjármálamörkuðum frá því í sumar. Fjármálastofnanir hafa þurft að afskrifa í bókum sínum meira en 130 milljarða Bandaríkjadala fram til þessa. "Þetta er eiginlega hið fullkomna réttlæti. Þær fjármálastofnanir sem báru ábyrgð á því að brugga hinn eitraða drykk enduðu sjálfar á því að drekka hann", segir Buffet.

Þrátt fyrir hrunið á undirmálslánamarkaðnum vestanahafs og lausafjárkrísuna sem skall á fjármálamörkuðum í kjölfarið, telur Buffet ekki rétt að tala um að lausafjárþurrð ríki á fjármagnsmörkuðum: "Peningar eru fáanlegir - og þeir eru í raun frekar ódýrir vegna mikilla stýrivaxtalækkana bandaríska seðlabankans". Hins vegar hefur átt sér stað "endurverðlagning á áhættu", segir Buffet. Það hefur gert það að verkum að ekki er lengur til staðar "gnægð fíflafjár", líkt og áður.

Nánar er fjallað um skoðun Spámannsins frá Omaha í helgarblaði Viðskiptablaðsins.