Bandaríska tæknifyrirtækið IBM skilaði árshlutauppgjöri í gær sem olli hluthöfum fyrirtækisins nokkrum vonbrigðum. Í uppgjörinu kom meðal annars fram að tekjur þess hefðu lækkað um 13,4% á öðrum ársfjórðungi frá sama tíma á síðasta ári. Samkvæmt frétt Wall Street Journal er þetta þrettándi ársfjórðungur fyrirtækisins í röð þar sem samdráttur verður í tekjum.

Fjárfestirinn Warren Buffett á næstum 80 milljónir hluta í fyrirtækinu í gegnum fjárfestingarfélag sitt, Berkshire Hathaway. Eftir birtingu uppgjörsins í gær lækkaði gengi IBM um næstum 5% eða 8,96 dali á hlut. Það þýðir að virði eignarhlutar Buffett minnkaði um næstum 700 milljónir dala eftir birtinguna.

Hver hlutur í IBM er nú metinn á 164,7 dali og er eignarhlutur Buffetts því metinn á 13,2 milljarða dali. Þegar hann keypti fyrst í fyrirtækinu í lok árs 2011 stóð gengið hins vegar í rúmum 180 dölum á hlut og er því nokkru lægra í dag. Buffett hefur hins vegar ekki misst trú á fjárfestingunni og aukið lítillega við hlut sinn síðan þá sem hingað til hefur þó ekki borgað sig.