Berkshire Hathaway, fjárfestingasjóður Warren Buffetts, hefur í fyrsta sinn eignast hlutabréf í vefversluninni Amazon. Frá þessu er greint í Financial Times þar sem kaupin eru sögð til marks um að ótti Buffetts við tæknifyrirtæki fari hratt dvínandi.

Ein af fjárfestingareglum Buffetts hefur verið að kaupa eingöngu í iðnaði og fyrirtækjum sem hann sjálfur skilji. Annað hvort hefur hann sagt skilið við þessa reglu eða lært mikið um tæknigeirann undanfarin ár því Berkshire Hathaway er nú þriðji stærsti hlutahafinn í Apple.

Buffett var í viðtali á CNBC á dögunum þar sem hann sagðist hafa notað Amazon um nokkurt skeið og væri aðdáandi félagsins. Og bætti því við að hann væri kjáni að hafa ekki fjárfest fyrr í félaginu.