Fjárfestirinn Warren Buffett segir að það þurfi ekki að vera slæmt fyrir evruna ef Grikkir yfirgefa evrusamstarfið. Í viðtali við CNBC sjónvarpsstöðina í gær sagði Buffett að brotthvarf Grikkja gæti þýtt að aðrir meðlimir skilji betur mikilvægi þess að fara eftir settum reglum.

Hann lagði áherslu á að aðildarríkin þyrftu að ná samkomulagi um fjármálastefnu sín á milli, hvernig sem það yrði útfært, og næðist slíkt samkomulag yrði það til góðs. Buffett sagði jafnframt að evruríkin þyrftu að samhæfa betur vinnulöggjöf sína og hagstjórn almennt. „Það gengur ekki lengur að fólk sé að fara hvert í sína áttina. Þjóðverjar munu ekki fjármagna Grikki að eilífu.“

Fái gríska ríkið ekki afhent 7,2 milljarða evru neyðarlán frá Evrópusambandinu er hætta á því að ríkissjóður lendi í greiðslufalli, því stór gjalddagi á láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er þann 7. apríl. Verði af slíku greiðslufalli er framtíð Grikkja innan evrusamstarfsins í mikilli hættu.