Auðjöfurinn Warren Buffett segist ekki trúa á þá háu styrki sem framboðslög leyfa stuðningsmönnum að gefa einstökum frambjóðendum í forsetakosningum. Þessu greinir CNN frá. Hann segist einfaldlega ekki trúa því að þeir ríkustu geti ákveðið kosningaúrslit og að þrátt fyrir að hann sé milljarðarmæringur ætti hann ekki að geta haft meiri áhrif á kosningarnar en meðalmaður.

Warren Buffett styrkti Ready for Hillary, sjóð fyrir forsetaframboð Hillary Clinton árið 2016, um 25,000 Bandaríkjadali í desember, eða sem nemur tæpum 3,5 milljónum íslenskra króna. Hann segist styðja hana heilshugar og trúa því að hún muni vinna kosningarnar. Hins vegar segist hann ekki muni gefa margar milljónir til framboðsins, frekar muni hann hjálpa við fjáraflanir.

Hann segir það vera mjög freistandi fyrir frambjóðendur að taka á mótti ávísunum frá þeim sem eiga ákveðinna hagsmuna að gæta en að það fari gegn lýðræði.

Buffett er næstríkasti maður Bandaríkjanna, en David og Charles Koch sem eru númer fjögur á listanum hafa sagt að þeir muni eyða $889 milljónum dollara til að styðja við frambjóðendur í forsetakosningunum árið 2016.