Bandaríski milljarðamæringurinn Warren Buffett segir ekki hagkvæmt að eiga skuldabréf um þessar mundir. Hagkvæmara er að eiga nóg af lausu eða handbæru fé en föstu í skuldabréfum til að hafa efni á óvæntum útgjöldum, að hans mati. Buffett segir hins vegar í lagi að kaupa hlutabréf þótt þau séu fjarri því jafn ódýr nú og þegar kreppan náði botni.

Buffett var í viðtali á sjónvarpsstöðinni CNBC í dag. Þar varaði hann m.a. fjárfesta við því að festa fé sitt í skuldabréfum til langs tíma þar sem þeir muni koma út í tapi á þeim þegar stýrivextir fara að hækka á ný. Stýrivextir í Bandaríkjunum hafa um langt skeið legið við núllið. Þá hafa þeir ekki verið lægri á evrusvæðinu. Þá fullyrti Buffett jafnframt að kjör skuldabréfa og krafa þeirra séu á vissan hátt tilbúningur vegna efnahagsaðgerða bandaríska seðlabankans. Á sama tíma og hann forðaði fjárfestum frá því að leita inn á skuldabréfamarkað þá sagði hann öðru máli gegna um hlutabréfamarkaðinn, sem hafi lagast mikið.