Það er asnaskapur nái Repúblikanar og Demókratar ekki saman um hækkun á skuldaþaki Bandaríkjanna um mánaðamótin október/nóvember. Þetta er mat milljarðamæringsins Warren Buffett . Hann sagði í viðtali við bandarísku sjónvarpsstöðina CNBC sem sent var út í dag að fjármálamarkaðir vestanhafs muni ekki fara á límingunum þótt samkomulag um að hækka skuldaþakið náist ekki í tæka tíð. Hann reiknar með titringi í röðum fjárfesta til skamms tíma en býst við að markaðurinn muni jafna sig eftir það.

Ríkisstjórn Bandaríkjanna hækkaði skuldaþak landsins í janúar síðastliðnum eftir mikið karp og gerði það Bandaríkjunum kleift að taka meira að láni svo hægt verði að standa við skuldbindingar hins opinbera. Nú er hins vegar svo komið að lántökur og aðrar skuldbindingar eru komnar nálægt rjáfrinu á nýjan leik. Í ágúst var reiknað með að hámarkinu verði náð í október.

Sem stendur er skuldaþakið 16,7 þúsund milljarðar dala.

Repúblikanar hafa á árinu sagt að þeir myndu aðeins styðja hækkun á skuldaþakinu gegn niðurskurði á útgjöldum hins opinbera. Buffett benti í viðtalinu m.a. á að mikill kostnaður í heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna sé myllusteinn um háls kerfisins og hafi verið það lengi.