BUGL bætist enn styrkur og nú nýverið bárust þeim tveir nýir Renault bílar að gjöf. Það er svokallað útiteymi barna- og unglingageðdeildarinnar sem fyrst og fremst mun njóta góðs af gjöfinni en bílakostur teymisins er kominn nokkuð til ára sinna . Það var fyrir tilstilli Lionsklúbbsins Fjörgyns að bílakostur útiteymisins var endurnýjaður, að því er fram kemur í frétt frá B&L.

Tómas Freyr Aðalsteinsson og Ari Hjálmtýsson starfa hjá BUGL og tilheyra útiteyminu. Tómas Freyr segir bílarnir komi í góðar þarfir. „Við erum á ferðinni allan liðlangan daginn og þurfum örugga og sparneytna bíla - en eins og fólk veit þá hefur skort fjármagn til þessa málaflokks undanfarin ár,“ segir Tómas í fréttinni.

Tilgangur útiteymisins er að veita börnum og ungmennum stuðning inn á heimilum þeirra. „Það er mikilvæg þjónusta við þessi börn og fjölskyldur þeirra að við komum á staðinn en einnig nýtast bílarnir við að ferja börnin á milli heimilisins og deildarinnar,“ segir Tómas.

Bílarnir tveir eru af gerðunum Renault Clio og Renault Trafic og getur stærri bíllinn tekið allt að 8 farþega.

BUGL mun ekki bera neinn kostnað af bílunum. Lionsklúbburinn Fjörgyns stóð að kaupunum en B&L gaf eftir söluhagnað bílanna, Sjóvá gaf bílatryggingarnar, Glitnir fjármögnun og N1 útvegar eldsneyti.  Merkjagerðin Frank og jói merkti bílana BUGL-inu.

Við sama tilefni var afhentur afrakstur árlegra aðventutónleika í Grafarvogskrikju upp á rúmlega eina og hálfa milljón króna.