Búið er að selja 85 verslanir bresku tískuvöruverslunarinnar MK One, sem áður var í eigu Baugs, til Internacionale og þar með bjarga stórum hluta hennar frá gjaldþroti.

Þetta kemur fram á vef  Cumberland News í Bretlandi.

Fjárfestingafélagið Hilco tók yfir rekstur MK One í maí á síðasta ári og setti reksturinn fljótlega í hendur endurskoðunarfélagsins Leonard Curtis (sem samsvarar greiðslustöðvun hér á landi) með það fyrir augum að selja reksturinn í bútum.

Nú hefur smásölukeðjan Internacionale tekið yfir rekstur 85 verslana sem fyrr segir með því að kaupa þann hluta af Leonard Curtis.

Neil Bennett, framkvæmdastjóri Leonard Curtis segir að með sölunni hafi tekist að bjarga yfir helmingi þeirra starfa sem í boði var hjá MK One. Þá muni salan hafa keðjuverkandi áhrif þar sem ekki verði óttast um stöðu birgja félagsins.

Höfuðstöðvum MK One verður þó lokað og öllu starfsfólki á skrifstofu félagsins sagt upp þar sem reksturinn verður alfarið í höndum Internacionale.