„Þetta er búið að eiga sér langan aðdraganda eða allt síðan í aprí síðastliðnum þegar viðræður hófust," sagði Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðar Egils Skallagrímssonar, sem greint hefur verið frá því að fjárfestingafélag, Water & Energy, sem er skráð á eyjunni Mön en er í eigu fjárfesta frá Kúveit og Kanada, hafa eignast 50% hlut í vatnsfyrirtækinu Iceland Spring.

Með tilkomu nýrra hluthafa hefur hlutafé í Iceland Spring verið aukið en Ölgerðin Egill Skallagrímsson á enn 20% og bandarísk félagið Pure Holding á nú 30%.

Andri sagðist ekki geta greint frá því vegna trúnaðar hversu mikið fjárfestingafélagið greiðir fyrir hlutafé í vatnsútflutningsfyrirtækinu.

„Þarna er bæði um það að ræða að nýtt hlutafé kemur inn og það er verið að greiða til fyrri hluthafa," sagði Andri.

Ölgerðin sér um framleiðslu Iceland Spring og árlega eru fluttar út um 700 gámaeiningar af vörunni frá Íslandi. Segir í tilkynningu að mikil markaðs- og þróunarvinna hafi verið í gangi í Bandaríkjunum í samstarfi við Palm Beach Media Associates og framundan sé stórsókn þar í landi.

Að sögn Andra er þetta fyrirkomulag mjög hagstætt þar sem Iceland Spring sé hreint sölu- og markaðsfélag og Ölgerðin framleiði fyrir þá í verktöku. Eftir innkomu fjárfestanna sé félagið vel í stakk buið til að efla markaðsstarf.

Nýtt slagorð Iceland Spring verður tilvísun í langlífi Íslendinga (e. Live longer). Langlífi landans vekur athygli erlendis og hollt drykkjarvatn í hreinu landi er talin eiga sinn þátt í því.

Nýtt og endurbætt útlit og framsetning Iceland Spring mun líta dagsins ljós á næstunni og er gert ráð fyrir sterkum viðbrögðum í Bandaríkjunum.

Iceland Spring, áður Þórsbrunnur, hefur flutt út vatn frá Íslandi síðan 1996. Vatnið er fengið úr sérstakri lind í Heiðmörk, sem eingöngu rennur til Ölgerðarinnar, til að tryggja hreinleikann frá uppsprettu til viðskiptavinar.

Á síðasta ári voru fluttir út um 700 gámaeiningar, mest til Bandaríkjanna en einnig til Japan. Hjá Ölgerðinni starfa tæplega 300 manns.