Mikil óvissa virðist vera um áframahaldandi orkuöflun á Hellisheiði þar sem ekki sér fyrir endann á fjármögnun borunar og virkjunarverkefna. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var í dag búið að pakka saman þeim borum sem verið hafa við vinnu á Hellisheiði vegna óvissunnar um fjármögnun.

Í gær var kynnt að Orkuveita Reykjavíkur og Norðurál hafi endurnýjað samning fyrirtækjanna um orkusölu til fyrirhugaðs álvers í Helguvík. Við það tækifæri kom þó fram í orðum Guðlaugs Gylfa Sverrissonar, stjórnarformanns Orkuveitu Reykjavíkur að fjármögnun verkefna á Hellisheiði væri ekki lokið. Ljóst er þó að sú fjármögnun er forsenda þessa að boranir eftir heitu vatni haldi áfram. Guðmundur var eigi að síður bjartsýnn við endurnýjun samninga þegar hann sagði:   „Við erum að staðfesta vilja okkar til að efla íslenskt atvinnulíf á erfiðum tímum. Oft var þörf en núna er nauðsyn!“   Sagði hann að með samningnum væri mikilvægum stoðum skotið undir áframhaldandi uppbyggingu Orkuveitu Reykjavíkur á Hellisheiði og í Hverahlíð og atvinnuuppbyggingu Norðuráls í Helguvík.

„Þessi samningur verður vonandi til þess að Helguvíkurverkefni Norðuráls verði að veruleika. Við þurfum að framleiða hér í þessu landi og helst fyrir gjaldeyri og við erum að leggja okkar af mörkum,“ bætti Guðlaugur við.   Upphaflega sömdu Orkuveitan og Norðurál um viðskipti vegna Helguvíkur í júní 2007. Var sá samningur endurnýjaður um mitt þetta ár. Ófyrirséðar tafir urðu á verkefninu vegna ástandsins sem skapaðist á fjármálamörkuðum á haustmánuðum og fyrri samningur aðila átti að renna út um áramótin.

Helstu atriði samningsins eru þau, að Orkuveita Reykjavíkur skuldbindur sig til að selja Norðuráli 100 MW af raforku til Helguvíkur. Þá selur Orkuveitan Norðuráli 75 MW til viðbótar sem hugsanleg atvinnuuppbygging í Ölfusi hefur þó forgang að til miðs árs 2009. Af þessari orku kaupir Norðurál 50 MW, hvort sem álverið í Helguvík verður tilbúið eður ei, þegar orkan verður tilbúin til afhendingar. Þetta ákvæði þýðir að Orkuveita Reykjavíkur hefur tryggt sölu á allri orku frá Hellisheiðarvirkjun.

Norðurál hyggst nýta orkuna á Grundartanga, verði álverið í Helguvík ekki reiðubúið að taka við orkunni. Loks er tengd samningnum viljayfirlýsing aðila um sölu á 75 MW til hugsanlegra síðari áfanga uppbyggingar í Helguvík. Verðið á raforkunni er ekki gefið upp, en er sagt óbreytt frá fyrri samningi, í Bandaríkjadölum og tengt álverði.