Landsbankinn hefur lokið ráðningu í stöður framkvæmdastjóra í bankanum , en allar stöður þeirra voru auglýstar lausar til umsóknar nýverið. Nálega 300 umsóknir bárust um stöðurnar átta.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum en samkvæmt nýju skipuriti bankans eru svið bankans átta; Viðskiptabanki, Fyrirtækjabanki, Endurskipulagning eigna, Eignastýring, Markaðir og fjárstýring, Fjármál, Þróun og Áhættustýring.

Framkvæmdastjórar Landsbankans eru í stafrófsröð: Árni Þór Þorbjörnsson, Frans Páll Sigurðsson, Helgi Teitur Helgason, Hjördís Dröfn Vilhjálmsdóttir, Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, Hreiðar Bjarnason, Jensína Kristín Böðvarsdóttir og Perla Ösp Ásgeirsdóttir.

Fyrirtækjabanki: Árni Þór Þorbjörnsson er lögfræðingur frá HÍ og hefur starfað í Landsbankanum frá 1996 og annast öll almenn lögfræðistörf, ráðgjöf og málflutning. Árni var yfirlögfræðingur Fyrirtækjasviðs til ársins 2008, en frá stofnun NBI hf. hefur Árni verið framkvæmdastjóri Fyrirtækjasviðs sem borið hefur hitann og þungann af endurskipulagningarvinnu og tillögugerð vegna aðgerða fyrir skuldsett fyrirtæki. Árni er kvæntur Hólmfríði Ólafsdóttur og eiga þau þrjú börn.

Endurskipulagning eigna: Hjördís Dröfn Vilhjálmsdóttir er B.S. í hagfræði frá HÍ. Hún var sérfræðingur á hagfræðisviði Seðlabanka Íslands frá 1999 – 2005, hagfræðingur hjá Glitni á árunum 2006 – 2008 og ráðgjafi fjármálaráðherra frá árinu 2009 við verkefni sem féllu ráðuneytinu í skaut við fall bankanna haustið 2008. Hjördís hefur setið í samstarfsnefnd stjórnvalda um fjármálastöðugleika fyrir hönd ráðuneytisins og var í samninganefnd um lán ríkisins frá Norðurlöndunum og Póllandi svo dæmi séu nefnd. Maki Hjördísar er Alfred Bæhrenz Þórðarson og eiga þau þrjú börn.

Eignastýring: Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir hefur frá árinu 2007 starfað hjá Arev Verðbréfafyrirtæki sem sjóðsstjóri. Hún er viðskiptafræðingur frá HÍ en hefur einnig lokið prófi frá Tryggingaskólanum og stundað MS nám í stjórnun við Háskóla Íslands. Hrefna starfaði sem forstöðumaður Skráningarsviðs og sérfræðingur á því sviði hjá Kauphöll Íslands frá 1998 – 2006. Áður gegndi hún starfi forstöðumanns einstaklingsþjónustu hjá Fjárvangi og var starfsmaður á peningamálasviði Seðlabanka Íslands. Hrefna er gift Böðvari Þórissyni. Þau eiga þrjú börn.

Viðskiptabanki: Helgi Teitur Helgason lauk embættisprófi í lögum frá HÍ 1998 og hóf þá störf sem lögfræðingur og síðar lögmaður í Landsbankanum, þar sem hann annaðist almenn lögfræðistörf, innheimtu, ráðgjöf og málflutning. Helgi leiddi opnun skrifstofu Intrum og Lögheimtunar (nú einnig Pacta) á Akureyri vorið 2001 og starfaði þar sem svæðisstjóri og lögmaður á Norðurlandi til vorsins 2004, auk þess að veita stéttarfélögum á Akureyri og félagsmönnum þeirra lögmannsþjónustu. Helgi hefur verið útibússtjóri Landsbankans á Akureyri frá árinu 2004. Sambýliskona Helga er Guðrún Hildur Pétursdóttir og eiga þau þrjú börn.

Markaðir og fjárstýring: Hreiðar Bjarnason er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og MSc í fjármálafræðum frá London Business School og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Hreiðar hefur starfað í Landsbankanum frá árinu 1998, fyrst sem sérfræðingur í Markaðsviðskiptum og síðar í Fjárstýringu. Hann hefur verið framkvæmdastjóri sviðs Markaða og fjárstýringar frá því snemma á þessu ári. Hreiðar er kvæntur Guðrúnu Örnu Sigurðardóttur og eiga þau þrjú börn.

Fjármál: Frans Páll Sigurðsson kemur til Landsbankans frá GlaxoSmithKline og hefur verið fjármálastjóri fyrirtækisins á Íslandi og í Noregi þar sem hann hefur aðsetur. Frans leiddi uppbyggingu starfs GlaxoSmithKline á Íslandi frá árinu 2004 sem fjármálstjóri og yfirmaður dreifingarmála. Hann er viðskiptafræðingur frá HÍ með endurskoðun sem sérsvið og hefur starfað sem ráðgjafi hjá PricewaterhouseCoopers, og sem meðeigandi hjá PWC Consulting og síðar hjá IBM Business Consulting Services. Frans er kvæntur Birnu Bjarnþórsdóttur og eiga þau fimm börn samtals.

Áhættustýring: Perla Ösp Ásgeirsdóttir er MSc í fjármálum frá Háskólanum í Reykjavík. Perla starfaði hjá Seðlabanka Íslands sem á árabilinu 2005 – 2010 og hjá Rannsóknarnefnd Alþingis árið 2009. Perla sinnti m.a. eftirliti með fjármálafyrirtækjum og -mörkuðum hjá Seðlabanka Íslands og annaðist gerð áhættulíkana fyrir íslenskan fjármálamarkað. Perla hefur verið forstöðumaður Áhættustýringar Landsbankans frá því í apríl á þessu ári. Maki er Sverrir Arnar Baldursson og eiga þau eina dóttur.

Þróun: Jensína Kristín Böðvarsdóttir kemur til Landsbankans frá Símanum þar sem hún hefur verið forstöðumaður Sölu á einstaklingssviði frá árinu 2007. Hún er BS í auglýsingafræðum frá San Jose State University í Kaliforníu, Bandaríkjunum og lauk MBA prófi með áherslu á neytendahegðun og markaðsfræði frá University of San Diego 1995. Jensína gegndi stöðu markaðsstjóra Globus frá árinu 2004 – 2007, var framkvæmdastjóri Mannauðssviðs IMG á árunum 2002 – 2004, framkvæmdastjóri Viðskiptaþróunar IMG frá 2001, starfsmannastjóri Norðurljósa 1999 – 2001 og tók þátt í mótun og uppbyggingu ráðningarþjónustu Gallup á árunum 1997 – 1999. Jensína er gift Þorvaldi Jacobsen og eiga þau fimm börn samtals.