Eldur varð laus eftir að sprenging varð í spennistöð álvers Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði skömmu eftir klukkan fimm í dag.

Í tilkynningu frá Alcoa kemur fram að enginn slasaðist í sprengingunni, en rafmagn fór af álverinu.

„Starfsmönnum álversins tókst með snarræði að ná tökum á ástandinu og byrjuðu að koma straumi á álverið upp úr klukkan 7 í kvöld. Slökkvilið Fjarðabyggðar tókst á tíunda tímanum í kvöld að ráða niðurlögum eldsins,“ segir í tilkynningunni.

Ekki er vitað hvað olli sprengingunni en málið er í rannsókn. Ekki er heldur vitað um tjón vegna eldsins á þessari stundu, né hvaða áhrif hann muni hafa á framleiðslu álversins.