„Þrátt fyrir krefjandi umhverfi höfum við náð að tryggja fjármögnun allra rekstrarfélaga Bakkavarar, styrkja rekstrargrundvöll félagsins og viðhaldið sölu þrátt fyrir almennt minnkandi eftirspurn á mörkuðum félagsins.“

Þetta segir Ágúst Guðmundsson, forstjóri Bakkavör Group í uppgjörstilkynningu frá félaginu en eins og fram hefur komið tapaði félagið 154,2 milljónum Sterlingspunda á síðasta ári en EBITDA hagnaður fyrir kostnað vegna endurskipulagningar nam 108,5 milljónum punda.

Ágúst segir í tilkynningunni að félagið hafi náð að tryggja fjármögnun allra rekstrarfélaga Bakkavarar til næstu þriggja ára eða fram til 30. mars 2012.

„Samningarnir sýna tiltrú og stuðning lánveitenda við starfsemi Bakkavarar og eru mikilvæg skilaboð til viðskiptavina, birgja, starfsmanna og annarra hagsmunaaðila um trygga fjárhagslega stöðu rekstrarfélaganna,“ segir Ágúst í tilkynningunni.

Þá kemur fram að félagið hefur jafnframt innleyst 144 milljónir punda af 150 milljóna punda innstæðu félagsins hjá Nýja Kaupþingi frá þriðja ársfjórðungi 2008, en gert er ráð fyrir að eftirstöðvar verði innleystar um miðjan apríl.

„Viðræður standa yfir við lánveitendur móðurfélagsins, en af viðræðum við stærstu eigendur skuldabréfa félagsins má ráða að þeir styðji við áætlanir félagsins um framlengingu á gjalddögum bréfanna,“ segir Ágúst.

Hann segir jafnframt að einskiptiskostnaður hafi haft mikil áhrif á afkomu og sjóðstreymi Bakkavarar árið 2008, m.a. vegna hagræðingaraðgerða á tímabilinu og taps á fjárfestingu í Greencore Group Plc auk þess sem rekstrarumhverfið hafi verið afar krefjandi.

„Við höfum hins vegar náð árangri í að lágmarka áhrif verðhækkana á hráefni, auka hagkvæmni í rekstri og auka markaðshlutdeild í nokkrum af  lykilvöruflokkum félagsins,“ segir Ágúst.

„Við gerum ráð fyrir að viðskiptaumhverfið verði áfram krefjandi en teljum jafnframt að þær aðgerðir sem þegar hefur verið ráðist í, ásamt áframhaldandi áherslu á forgangsverkefni félagsins, geri það vel í stakk búið til að takast á við núverandi aðstæður og mæta breyttri eftirspurn neytenda. Í ljósi þessa gerum við ráð fyrir að félagið skili á ný góðri afkomu og auknu sjóðstreymi á þessu ári.“