„Öll mál eru frágengin við mig,“ segir Gísli Kjartansson, fráfarandi sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Mýrarsýslu um starfslok sín. Gísli hefur óskað eftir að láta af störfum sem sparisjóðsstjóri. Af honum tók við Bernhard Þór Bernhardsson, sem áður var forstöðumaður viðskiptaþjónustu hjá sparisjóðnum.

Bernhard tók við stöðu sparisjóðsstjóra í gær og hjá Gísla tekur við hvíld. „Ég er að verða 65 ára gamall, þannig að ég hef hugsað mér að taka mér hvíld. Þetta er búið að vera erfitt sumar og hefur tekið á. Þannig að mér finnst þetta vera ágætis tímamót til að drífa mig á eftirlaunin,“ segir Gísli sem gat ekki veitt Viðskiptablaðinu neinar upplýsingar um starfslokasamninginn.

Ekki náðist í stjórn Sparisjóðs Mýrarsýslu við gerð þessarar fréttar en formaður stjórnar er Róbert Agnarsson, sem kemur inn í stjórn, ásamt Þórbergi Guðjónssyni, fyrir hönd Kaupþings. Eins og greint hefur verið frá á Kaupþing nú 70% í SPM.