Arion banki afskrifaði 21,6 milljarða króna af skuldum 1998 ehf. um síðustu áramót. 1998 ehf. skuldaði bankanum 55 milljarða króna samkvæmt síðasta birta ársreikningi. Því var 33,4 milljarða króna skuld enn inni í félaginu.

Eina eign 1998 um síðustu áramót var 95,7% eignarhlutur í smásölurisanum Högum. Hann var metinn á 12 milljarða króna. Arion seldi síðan 34% hlut í Högum í febrúar á 4.140 milljónir króna til Búvalla slhf., undir forystu Hallbjörns Karlssonar og Árna Haukssonar. Til viðbótar samdi félagið um forkaupsrétt á 10% hlut í Högum á hærra verði. Stefnt er að því að Hagar verði skráðir í kauphöll í haust. Því ætti að liggja fyrir hversu mikið til viðbótar Arion þarf að afskrifa vegna 1998 í lok þessa árs.

Umbreyttu skuldum í hlutafé

Á hluthafafundi sem haldinn var 1. júlí 2010 var samþykkt að hækka hlutafé 1998 um 21,6 milljarða króna. Eini hluthafi félagsins, Arion banki, skráði sig fyrir allri hækkuninni. Í skýrslu stjórnar 1998 ehf. segir að „heimilt verður að greiða fyrir hið nýja hlutafé með umbreytingu krafna Arion banka hf. á hendur 1998 ehf [...] Stjórn 1998 ehf. hefur lagt mat á hvort skuldir þær sem um ræðir séu til staðar. Þá liggur fyrir vilji Arion banka hf. á umbreytingu skulda í hlutafé“. Því breytti Arion 21,6 milljörðum króna af kröfum sínum á 1998 í hlutafé þennan dag. Þann 31. desember 2010 var síðan haldinn hluthafafundur í 1998.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.