Jafnvel þó að gengistryggð fyrirtækjalán verði dæmd ólögmæt mun það ekki hafa í för með sér verulegar umframafskriftir á þeim lánum í heild sinni, þegar tekið er mið af því matsverði sem samningar nýju og gömlu bankanna gerðu ráð fyrir. Því eiga stóru bankarnir þrír, Landsbanki, Arion banki og Íslandsbanki, allir að hafa nægjanlegt svigrúm til að færa niður gengistryggð fyrirtækjalán sín.

Þetta kemur fram í skýrslu sem Þorsteinn Þorsteinsson, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins og aðalsamningamaður ríkisins við uppskiptingu bankanna, skrifaði fyrir fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna. Skýrslan var kynnt á ríkisstjórnarfundi í lok mars.

Dóma vantar um fyrirtækjalán

Í febrúar 2011 féllu tveir dómar í Hæstarétti vegna gegngistryggðra  lána Frjálsa fjárfestingarbankans. Samkvæmt þeim var gengistrygging allra slíka lána, óháð lántakanda, bönnuð og ólögmæt. Stóru bankarnir þrír sögðu áhrif dómsins á fyrirtækjalán sín þó takmörkuð og vísuðu til þess að lánasamningar bankanna væru ekki sambærilegir hvað orðalag varðar.

Enn á því eftir að skera úr um að hvaða marki fyrirtækjalán teljast geyma ólögmæta gengistryggingu og mun líklega reyna á það fyrir dómstólum á þessu ári. Fjöldi fyrirtækja hefur reyndar þegar samið um breytingar á slíkum lánum við lánardrottna sína.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun, miðvikudag. Meðal annars efnis í blaði morgundagsins:

  • Rekstur Fasteignar yfirtekinn
  • Viðtal: Ólöf Nordal segir Ísland geta staðið á eigin fótum
  • Álfyrirtækin munu þurfa að kaupa losunarheimildir
  • Bankar sýna Byr áhuga
  • Erlend: Enginn verið dæmdur þrátt fyrir lögbrot stærstu banka heims
  • Lífeyrissjóðir geta eignast helmingshlut í HS Orku
  • Óljóst hvernig gjaldmiðlaskiptasamningar verða gerðir upp
  • Úttekt: Mögulegar peningastefnur framtíðarinnar
  • Norðursigling býður upp á lúxussiglingu við Grænland
  • Hrafn Jökulsson skrifar um nýja ríkisstjórn Bjarna Ben
  • Ný bók Árelíu Guðmundsdóttur aðstoðar fólk að finna starf við hæfi
  • Óðinn skrifar um nýja skýrslu um samkeppni á bankamarkaði