Sérstakur saksóknari hefur birt öllum fimmtán sakborningum í málum um meinta markaðsmisnotkun og umboðssvik í Landsbankanum og Kaupþingi ákærur. Málin verða þingfest þann 24. apríl næstkomandi í Héraðsdómi Reykjavíkur og tekur dómsmeðferðin við að því loknu. Mál sakborninga í hvoru máli verða tekin fyrir í einu og sama þinghaldi. „Miðað við þau mál sem við höfum farið með í gegnum dómskerfið þá hefur liðið vel á ár, jafnvel rúmlega það, áður en málið er á endanum flutt,“ segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, aðspurður um tímaramma málsmeðferðarinnar.

Sérstakur saksóknari birti síðasta sakborningi ákæru á föstudag en hafði það þá dregist um fjóra daga. Ástæðan var sú að Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, vildi taka á móti ákærunni sjálfur og neitaði að veita lögmanni sínum, Karli Axelssyni, heimild til verksins. Nokkrir aðrir sakborningar búa utan landsteinanna og standa sumir úr hópnum í fleiri dómsmálum en þessu eina.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.