Búvellir slhf. hafa greitt fyrir 35,3% hlut sem félagið samþykkti að kaupa í smásölurisanum Högum í febrúar. Samkeppniseftirlitið lagði nýverið blessun sína yfir kaupin og í kjölfarið fór greiðsla á 4.140 milljóna króna kaupverðinu fram.

Nýju eigendurnir hafa nú fengið hlutabréf sín afhent frá seljandanum, dótturfélagi Arion banka, og hafa full yfirráð yfir þeim. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins var gengið frá þessum málum síðastliðinn mánudag.

Ný stjórn kosin

Ný stjórn, m.a. skipuð fulltrúum nýrra eigenda, var kosin á aðalfundi Haga 11. maí síðastliðinn þrátt fyrir að ekki væri búið að ganga formlega frá öllum málum varðandi söluna. Árni Hauksson og Hallbjörn Karlsson, sem leiddu Búvallahópinn og eru stærstu einstöku eigendurnir innan hans, settust báðir í stjórn á fundinum. Árni var auk þess kosinn stjórnarformaður.

Samsetning samlagsfélagsins Búvalla slhf. er um margt flókin. Stærsti einstaki eigandi þess er Hagamelur ehf., félag í eigu Árna, Hallbjörns, Sigurbjörns Þorkelssonar og Tryggingafélagsins TM. Hlutur Árna og Hallbjörns er í gegnum fjárfestingarfélag þeirra, Vogabakka ehf. Á meðal annarra fjárfesta sem tóku þátt í kaupunum eru margir af stærstu lífeyrissjóðum landsins, sjóðir í rekstri hjá Stefni og fagfjárfestar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.