Icelandair hefur fellt niður 65 flug mánudaginn 16. júní, vegna sólarhringsverkfalls flugvirkja. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá flugfélaginu. Um er að ræða öll flug Icelandair þennan dag, nema flug sem hefjast erlendis síðdegis 16. júní og lenda á Keflavíkurflugvelli að morgni 17. júní.

Flugin eru felld niður með þessum fyrirvara til að eyða óvissu og gefa farþegum tækifæri á að gera nauðsynlegar ráðstafanir. Í heild hafa aðgerðirnar áhrif á ferðir um 12 þúsund farþega sem flestir eru erlendir ferðamenn og er reynt að koma upplýsingum til þeirra eftir fremsta megni.

Í tilkynningunni er haft eftir Guðjóni Arngrímssyni, upplýsingafulltrúa Icelandair, að það séu mikil vonbrigði að þurfa að grípa til þessara ráðstafana. Hann segir að flugvirkjum standi til boða sambærilegar kjarabætur og samstarfsmönnum þeirra, sem hafa nýlega samið. Ekki sé mögulegt fyrir Icelandair að ganga að kröfu flugvirkja um margfalt meiri hækkun launa en aðrir hafa fengið. Í ljósi þess að viðræður hafi engan árangur borið sé nauðsynlegt að taka strax ákvörðun um að fella niður flugin á mánudag.

Icelandair mun í dag og um helgina reyna eftir fremsta megni að aðstoða farþega með því að flytja þá yfir á önnur flug eða breyta farmiðum með öðrum hætti. Aukaflugum hefur verið bætt við áætlun félagsins á sunnudag og þriðjudag. Þá munu þeir sem hætta við ferð sína fá endurgreitt.

Nánari upplýsingar og listi yfir niðurfelld flug er heimasíðu Icelandair.