Búið er að ganga frá sölu á öllu hlutafé slitastjórnar Landsbanka Íslands í Iceland verslanakeðjunni til Malcolm Walker, forstjóra Iceland, og annarra yfirstjórnenda fyrirtækisins.

Í tilkynningu frá slitastjórninni segir að þetta sé í samræmi við fyrri tilkynningar um söluna, en söluverðið miðast við að heildarverðmæti Iceland Foods sé 1.550 milljónir sterlingspunda. Jafngildir það ríflega 307 milljörðum króna.

Slitastjórn LBI segist telja söluna í fullu samræmi við markmið hennar um að hámarka virði eignarhluta bankans í félaginu og skila bestu mögulegu endurheimtum til kröfuhafa.