Viðræðuáætlanir liggja fyrir hjá Ríkissáttasemjara vegna endurnýjunar allra kjarasamninga sem renna út í lok nóvember næstkomandi, en þær eru yfir sjötíu. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur ber atvinnurekendum og stéttarfélögum að hafa tilbúnar viðræðuáætlanir um skipulag kjaraviðræðna í síðasta lagi 10 vikum áður en kjarasamningur rennur út.

Í Morgunblaðinu í dag kemur enn fremur fram að Ríkissáttasemjari hafi þurft að gefa út viðræðuáætlun fyrir SA og Starfsgreinasambandið. Deilur urðu þeirra í milli um það hvort hægt væri að undanskilja tiltekna samninga.