Engar eignir fundust upp í rúmlega 4,3 milljarða króna kröfur í þrotabú fjárfestingarfélagsins BNT, móðurfélags N1. BNT skuldaði um 60 milljarða króna þegar samkomulag náðist við lánardrottna í apríl árið 2011 um að þeir breyttu skuldum í nýtt hlutafé. Íslandsbanki tók svo félagið yfir og setti það í þrot í september á síðasta ári.

Í Markaðnum, fylgiblaði Fréttablaðsins um viðskipti, í dag er rifjað upp að á árum áður hafi aðaleigandi BNT verið fjárfestingarfélagið Máttur. Félagið var í eigu Einars og Benedikts Sveinssona og Karls og Steingríms Wernerssona. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, var stjórnarformaður BNT og sat í stjórn Máttar.