Hlutafé Fjarskipta hf (Vodafone) hefur verið hækkað um rúma 51 milljón hluti að nafnvirði. Þeir verða eftir breytinguna rúmlega 3,4 milljarðar að nafnvirði. Þessir nýju hlutir verða teknir til viðskipta á Aðalmarkaði Kauphallarinnar á morgun, að því er fram kemur í tilkynningu.

Ástæðan fyrir hlutafjárhækkuninni er sú að félagið þarf að láta félagið Stoðir fá meira hlutafé vegna nauðasamnings Teymis. Teymi var móðurfélag Fjarskipta.

Þegar Teymi var skipt upp annars vegar í Advania og hins vegar í Fjarskipti var ákveðið að félögin tvö bæru sameiginlega skyldu til uppgjörs allra krafna vegna nauðasamnings. Í lýsingu Fjarskipta, sem gefin var út í nóvember 2012, sagði að hlutur Fjarskipta væri 64,85%, sem fæli í sér útgáfu nýs hlutafjár í félaginu að fjárhæð 58,4 milljónir væru kröfurnar efndar að fullu og að þar af eigi 50,4 milljónir að koma í hlut Stoða hf.

Fjarskipti bera 65,82% af skuldbindingum Teymis og því nemur nafnverð þess hlutafjár sem gefa þarf út til handa Stoðum um 52,2 milljónum króna.