Þrír nýir kaflar í viðræðum Íslands við Evrópusambandið voru opnaðir á sérstakri ríkjaráðstefnu í síðustu viku. Kaflarnir sem nú voru opnaðir eru kafli 14 um flutningastarfsemi, kafli 19 um félags- og vinnumál og kafli 22 um fjárhagslegt eftirlit.

Alls er þá búið að opna 18 kafla af þeim 33 sem þarf að semja um. Samningum um 10 þeirra er lokið til bráðabirgða. Þetta kemur fram í fréttabréfi sendinefndar Evrópusambandsins á Íslandi.

Á blaðamannafundi eftir ráðstefnuna sagði Štefan Füle stækkunarstjóri ESB að aðildarsamningar hefðu ekki gengið svo hratt fyrir sig frá árinu 2006, þegar nýir skilmálar fyrir stækkun voru teknir upp.