„Við erum búnir að sækja 100 milljónir í viðbót í hlutafé og við erum á gífurlegri siglingu með vöru sem fór í loftið í nóvember sem við köllum Dohop Connect. Hún er langt, langt á undan þeim áætlunum sem við gerðum,“ segir Davíð Gunnarsson, framkvæmdastjóri Dohop í samtali við Viðskiptablaðið.

Í gær fjallaði Fréttablaðið um það að Dohop þyrfti að sækja sér 65 milljónir króna til að halda rekstrinum gangandi og að gengisstyrking hafi haft neikvæð áhrif á rekstur félagsins. Þar var vísað til fundargerðar aðalfunds félagsins sem haldinn var fyrir tveimur mánuðum og eru þær upplýsingar nú orðnar úreltar miðað við núverandi stöðu Dohop. Gert er ráð fyrir því að velta félagsins muni aukast um fimmtíu prósent á þessu ári og mun hún þá vera 405 milljónir króna.

Dohop Connect fer vel af stað

Nýja lausnin, sem ber nafnið Dohop Connect, felur  í sér grundvallarbreytingu á þeirri þjónustu sem fyrirtækið veitir. „Það sem Dohop hefur alltaf gert er að púsla saman aðskildum flugmiðum og þá hafa notendur sjálfir þurft að gera tvær eða fleira bókanir. Með þessari lausn getur notandinn klárað þetta í einni bókun í gegnum okkar vef. Þá bjóðum við tengivernd, sem þýðir að ef svo óheppilega vill til að hann notandinn missir af tengiflugi þá bókum við hann í næsta mögulega flug honum að kostnaðarlausu,“ sagði Davíð í viðtali við blaðið í mars.

„Sem dæmi reiknuðum við með því að við myndum selja 800 miða í júní - en við seldum 2.000. Þeir verða líklega 3.000 í júní. Þetta vex miklu hraðar en við þorðum að vona,“ segir Davíð.