Gjaldeyriskaup sveitarfélaga og fyrirtækja þeirra vegna afborgana af erlendum lánum þeirra verða væntanlega talsvert minni í haust og vetur en þau voru í fyrra þar sem afborganir eru lægri nú, að mati Greiningar Íslandsbanka. Deildin rifjar upp í Morgunkorni sínu í dag líkleg ástæða þess að krónan hafi veikst frá í fyrrasumar og fram í febrúar á þessu ári hafa verið sú að fyrirtæki og sveitarfélög hafi þurft að greiða af gengislánum.

Krónan hefur veikst minna nú en í fyrra

Greining Íslandsbanka segir Kópavogsbæ hafa gert upp við Dexia og erlendar skuldir bæjarins orðnar óverulegar. Þá eru erlend lán Orkuveitu Reykjavíkur talsverð (OR). Í ár námu afborganir 25 milljörðum króna, þar af voru 10 milljarðar á gjalddaga í vor en restin á seinni hluta ársins. Greining Íslandsbanka segir líklegt að OR sé langt komið með gjaldeyrisöflun fyrir afborganir ársins.

Bent er á í Morgunkorninu að undanfarinn mánuði hafi gengi krónunnar veikst um 2,5%. Á sama tíma í fyrra veiktist krónan hins vegar um 6%.

Greining Íslandsbanka segir:

„Raunar var hluti af þeirri veikingu líkast til e.k. leiðrétting eftir skammvinnan styrkingarkúf seinni hluta sumars, og enn er vitaskuld ekki útséð um hvernig þróun krónunnar verður á komandi vikum og mánuðum. Við teljum þó að þrýstingur á gengi krónunnar gæti verið eitthvað minni þetta haustið en raunin var í fyrra, ekki síst vegna ofangreindrar þróunar og raunar einnig minni gjaldeyrisþarfar ýmissa annarra innlendra aðila með erlendar skuldir á næstunni.“