Byggingarfulltrúi hefur samþykkt umsókn frá Höfðatorgi ehf. um byggingu nýs hótels á Höfðatorgi við Borgartún. Fyrirhugað er að hótelið verði rúmir 17 þúsund fermetrar að stærð, á 16 hæðum með 342 herbergjum, að því er segir í frétt Morgunblaðsins .

Unnið er að fjármögnun verkefnisins að sögn Gunnars Vals Gíslasonar, framkvæmdastjóra Höfðatorgs ehf. Niðurstaða um fjármögnunarþátt verkefnisins á að liggja fyrir um miðjan maí. Bygging hótelsins hefur verið í burðarliðnum um nokkra hríð en árið 2010 voru fyrirhugaðar framkvæmdir settar í salt. Verktakafyrirtækið Eykt hefur séð um framkvæmdir á Höfðatorgsreitnum og að sögn Gunnars er áætlað að byggingartíminn sé um tvö ár. Ásamt byggingu hótelsins er stefnt að því að stækka bílakjallara undir Höfðatorgi.

Samkvæmt Birni Stefáni Hallssyni, byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar, er um að ræða hefðbundið 3-4 stjörnu ferðamannahótel með þjónustu í anddyri og á efstu hæð hótelsins. Að hans sögn er ekki gert ráð fyrir aðstöðu til ráðstefnuhalds.