Alls 3229 félög hafa fengið 250 þúsund króna sekt fyrir vanskil á ársreikningum fyrir árið 2009, að sögn Skúla Eggerts Þórðarsonar ríkisskattstjóra. Sektarbréfin voru gefin út 4. og 5. maí og er þetta í fyrsta skipti sem slíkar sektir eru lagðar á.

Í desember 2010 barst félögum í vanskilum áskorun um skil ellegar yrðu lagðar á sektir. Þá voru um 10 þúsund félög í vanskilum. Önnur ítrekun var send út í febrúar 2011 auk þess sem áskorun birtist í blöðum.

Samkvæmt Skúla hafa Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins óskað eftir hertum lögum um skil ársreikninga. Sektir verða einnig lagðar á fyrir vanskil ársreikninga 2010 en síðasti skiladagur þeirra er 31.ágúst 2011.