Kísilmálmverksmiðja United Silicon í Helguvík var gangsett í gær  eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um.

Setti Regnheiður Elín Árnadóttir Iðnaðar- og viðskiptaráðherra í gang Ísabellu, fyrsta af fjórum áætluðum ljósbogaofnum verksmiðjunnar, en hann framleiðir kísilmálm með bræðslu á kvartsgrjóti.

„Markaðurinn er ágætur en verðið er ekki hátt,“ segir Helgi Björn yfirverkfræðingur kísilmálmverksmiðju United Silicon í viðtali við Morgunblaðið.

„Raunar erum við búin að selja alla framleiðsluna úr þessum fyrsta ofni. Afurðirnar fara til Evrópu og einnig til Bandaríkjanna.“

Notaður til íblöndunar í málmum

Í ágúst var lokið við fyrsta áfanga verksmiðjunnar en síðan hefur verið unnið að prófunum á búnaði en félagið tók formlega við verksmiðjunni í gær. Munu fyrstu afurðirnar koma úr þessari fyrstu kísilmálmverksmiðju landsins síðar í vikunni.

Verður kísillinn aðallega notaður til íblöndunar á áli og öðrum málmun, en með meiri hreinsun eins og þeirri sem er fyrirhuguð í verksmiðju Silicor á Grundartanga, verður hægt að selja vöruna í efnaiðnað og sólarkísilrafhlöður.

„Til samanburðar má geta þess að kísiljárnverksmiðjan á Grundartanga framleiðir blöndu þar sem hlutur kísils er 70-75% af endanlegri afurð,“ segir í frétt Morgunblaðsins, en Helgi segir ekki liggja fyrir hvenær hinir ofnarnir verði settir upp.

„Vitað er að hagkvæmara er að reka saman tvo ofna en einn og vonandi verði hægt að bæta honum við sem fyrst. Hins vegar verði fyrsta ð koma fyrsta ofninum í jafnan og góðan rekstur og síðan að sjá hvernig kísilmarkaðurinn þróast.“