Austurríska fyrirtækjasamsteypan Novomatic hefur keypt 90% hlut í hugbúnaðarfyrirtækinu Betware. Fréttablaðið segir um málið í dag að samningum um viðskiptin hafi verið undirritaður í London á fimmtudag í síðustu viku og að kaupverð sé trúnaðarmál. Blaðið segist þó hafa heimildir fyrir því að verðið liggi á milli 2-3 milljarða króna.

Novomatic er einn stærsti framleiðandi tækja- og hugbúnaðar fyrir spilakassa í Evrópu. Hlutaféð var áður í eigu stjórnenda og starfsmanna Betware og aðila sem tengjast þeim. Helstu stjórnendur Betware halda 10% hlut.

Stefán Hrafnkelsson, stofnandi og fyrrverandi aðaleigandi Betware, segir í samtali við Fréttablaðið að með viðskiptunum sé lokið söluferli sem hófst fyrir rúmu ári. Hann segir söluna ekki eiga að hafa áhrif á daglegan rekstur.

Betware hlaut Frumkvöðlaverðlaunin Viðskiptablaðsins árið 2010.

Hjá Betware vinna um 120 manns, þar af 70 hér á landi.