Bandaríski milljarðamæringurinn Robert FX Sillerman hefur selt fyrirtækið Elvis Presley Enterprises, sem á öll réttindi að lögum og varningi tengdum Elvis Presleys. Kaupandinn er Authentic Brands Group sem á réttindi nokkurra stjarna, þar á meðal Marilyn Monroe. Ekkert hefur verið gefið upp um kaupverðið. Authentic Brands Group á sömuleiðis réttindi að notkun vörumerkis kynbombunnar og kvikmyndastjörnunnar Marilyn Monroe. Lisa Marie Presley, dóttir rokkkóngsins, seldi Sillerman vörumerki föður síns árið 2011. Hún á enn hlut í Graceland, heimili Elvis Presley í Memphis, á móti Sillerman.

Fjölmargir erlendir fjölmiðlar hafa fjallað um viðskiptin í dag. Þar á meðal er breska ríkisútvarpið ( BBC ) sem segir að þótt senn séu liðin 40 ár frá andláti Elvis Presley, sem lést í ágúst árið 1977, þá lifi tónlist hans enn góðu lífi. Í fyrra skiluðu lög hans 55 milljónum dala í kassann en það gera eina 6,7 milljarða íslenskra króna. Hann var í öðru sæti á eftir þeim tekjuhæsta, sem var Michael Jackson.

Þá trónir kóngurinn enn á vinsældarlistum en safn laga hans er ofarlega á breskum vinsældarlistum þessa dagana.