Fjártæknifyrirtækið Rapyd , sem er með höfuðstöðvar í London , hefur keypt alla hluti í greiðslumiðlunarfyrirtækinu Korta. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Seðlabanka Íslands. Í tilkynningu segir að kaupverðið greiðist með reiðufé.
„Hluti kaupverðs tekur mið af rekstri Korta á þessu ári og því liggur ekki fyrir hvert endanlegt kaupverð verður fyrr en í upphafi næsta árs," segir í tilkynningunni. „Núverandi mat bankans á kaupverði fyrir eignarhlut bankans í Korta er að það verði í samræmi við bókfært virði hlutarins um sl. áramót og hafi því ekki áhrif á afkomu bankans á þessu rekstrarári."

„Það er gaman að geta tilkynnt um sölu Korta hf. sem bankinn, ásamt hópi fjárfesta, endurfjármagnaði árið 2017 í kjölfar reiðarslags sem félagið varð fyrir vegna gjaldþrots Monarch flugfélagsins," er haft eftir Marinó Erni Tryggvasyni, forstjóri Kviku í tilkynningunni. „Þrátt fyrir krefjandi aðstæður á undanförnum árum hefur tekist að rétta við rekstur Korta og ánægjulegt að koma félaginu nú í hendurnar á öflugu alþjóðlegu fyrirtæki sem hyggst styðja við frekari vöxt þess."

Arik Shtilman , forstjóri Rapyd , sér tækifæri á kaupunum. „Korta passar vel í okkar stefnu við að stækka frekar innan Evrópu og við hyggjumst efla starfsemi Korta í Reykjavík," er haft eftir honum í tilkynningu.

Magnús Ingi Einarsson, framkvæmdastjóri bankasviðs Kviku og stjórnarformaður Korta, segir greiðslumiðlunarfyrirtækið hafa verið í mikilli sókn og til marks um það þá hafi hlutdeild félagsins á innanlandsmarkaði aukist um 60% á síðasta ári.