Félagið SF IV slhf, félag í rekstri Stefnis, dótturfélags Arion banka munu taka við rekstri Skeljungs og færeyska olíufélaginu P/F Magn eftir áramótin. Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt nýja eigendur. Fram kemur í tilkynningu að sátt var gerð við Samkeppniseftirlitið sem ætlað er að tryggja sjálfstæði Skeljungs og mun hún verða birt á næstu vikum. Ekkert er gefið upp um kaupverðið. Fram kom í gær að það nemi í kringum 10 milljörðum króna.

Helstu eigendur Skeljungs eru hjónin Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Þórðarson en þau eiga 94% hlut í félaginu. Einar Örn Ólafsson, forstjóri Skeljungs, á svo 3% hlut í Skeljungi.

Kaupin voru leidd af framtakssjóðnum SÍA II, sem er í rekstri Stefnis, en meðal annarra hluthafa eru lífeyrissjóðir, aðrir stofnanafjárfestar og einstaklingar. Nánar verður greint frá hluthöfum SF IV þegar nýir eigendur taka við félaginu. Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka var ráðgjafi kaupenda í viðskiptunum.

Skeljungur var stofnaður árið 1928 og rekur um 100 afgreiðslustöðvar undir vörumerkjunum Orkan og Shell. Hjá fyrirtækinu starfa um 300 starfsmenn. Félagið á um 35 fasteignir sem eru samtals um 23.000 fermetrar. P/F Magn var stofnað af Shell í Danmörku árið 1953. Hjá fyrirtækinu starfa um 140 starfsmenn. Magn rekur 11 bensínafgreiðslustöðvar í Færeyjum auk þess að sinna fyrirtækjamarkaði og selja gasolíu til húshitunar í Færeyjum.