Slitastjórn Kaupþings hefur samið um afgreiðslu 50 mála af um 70 sem tengjast lánveitingum Kaupþings til starfsfólks bankans. Talið er líklegt að eftir dóm Hæstaréttar í máli Delíu Howser fyrir tæpum hálfum mánuði sé komið fordæmi um niðurstöðu í um tíu málum sem eftir eru enda eru þau af sambærilegum toga og þau sem þegar er búið að semja um. Í máli Delíu var niðurfellingu stjórnar Kaupþings á persónulegri ábyrgð Delíu rift og var henni gert að greiða 10% skuldarinnar.

Greint var frá því í netútgáfu Viðskiptablaðsins fyrr í dag að fyrirtaka hafi verið í fjórum málum fyrrverandi starfsmanna Kaupþings og sé gert ráð fyrir að þau geti endað með svipuðum hætti og mál Delíu. Stefnt er að því að ná sáttum í málunum í júní.

Af þeim 20 málum sem út af standa eru um tíu mál í hnút sem tengjast æðstu stjórnendum Kaupþings sem jafnframt fengu hæstu lánin. Fáist ekki niðurstaða í þeim í samræmi við niðurstöðuna í máli Delíu Howser er reiknað með að þau fari áfram í dómskerfinu.