Jens Stoltenberg, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, hefur verið skipaður framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins og formaður stjórnar Norður Atlantshafsráðsins. Hann tekur við af Anders Fogh Rasmussen.

Stoltenberg tekur við störfum þann 1. Október næstkomandi þegar starfstímabil Rasmussens lýkur. Þá mun Rasmussen hafa gegnt starfinu í 5 ár og 2 mánuði.

Skipan Stoltenberg kemur ekki á óvart. Bæði Aftenposten og VG höfðu greint frá því að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, myndu styðja Stoltenberg í starfið. Aftenposten greindi síðan aftur frá því að David Cameron, forsætisráðherra Breta, og Francois Hollande, forseti Frakklands, styddu hann líka.