Staðfest var í Lögbirtingablaðinu 11. maí síðastliðinn að búið væri að skipta búi L182-A ehf. sem áður hét Lögmenn Laugardag. Rekstur lögmannsstofunnar var fluttur undir annað félag sumarið 2009 þegar ljóst var að reksturinn stefndi í þrot. Nafni Lögmanna laugardal var breytt í L182-A og ný kennitala tók upp nafnið Lögmenn Laugardal sem er í rekstri.

Þeir sem stjórna báðum þessum félögum eru Björn Þorri Viktorsson og Karl Georg Sigurbjörnsson, hæstaréttarlögmenn.

Engar eignir fundust í búinu samkvæmt Lögbirtingablaðinu og var skiptum í því lokið 29. apríl 2011 án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur, auk áfallinna vaxta og kostnaðar eftir úrskurðardag gjaldþrotaskipta. Lýstar kröfur í búið námu tæpum 13 milljónum króna. Lang stærsti kröfuhafinn er samkvæmt upplýsingum frá skiptastjóra Tollstjórinn.

Viðskiptablaðið hefur ekki upplýsingar um hvernig skuldin við Tollstjórann skiptist. Sem dæmi um skatta og gjöld sem Tollstjórinn innheimdir eru bifreiðagjöld, fjármagnstekjuskatt, tekjuskatt, tryggingagjald, virðisaukaskatt og fleira.