Búið er að stofna bílasölu á vefmarkaðnum Bland. Heiti fyrirtækisins er einfaldlega Bland Bílasala ehf, að því er fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag. Nokkuð er um liðið síðan grunnur var lagður að stofnun bílasölunnar en í september auglýsti Bland eftir löggiltum bílasala til að annast þar umsýslu með bíla.

Skorri Rafn Rafnsson, framkvæmdastjóri Bland, sagði í samtali við VB.is í september síðastliðnum hátt í 10.000 farartæki skráð á vef Bland í hverjum mánuði og gangi mörg hundruða bíla þar kaupum og sölum í viku hverri. Af þeim sökum taldi hann bílasöluna á Bland með þeim umfangsmeiri á landinu enda hlutdeild vefsins í sölu á notuðum bílum um 60%, að mati Skorra. Hann bjóst þó ekki við að bílasalan verði að veruleika á netinu fyrr en eftir nokkra mánuði.