*

laugardagur, 28. nóvember 2020
Innlent 23. október 2020 17:14

Búið að veita þrjú brúarlán

Upphaflega var áætlað að heildarábyrgðir ríkissjóðs yrðu á bilinu 35-50 milljarðar króna.

Jóhann Óli Eiðsson
Árni Sæberg

Alls hafa þrjú brúarlán verið veitt og ábyrgð ríkissjóðs vegna þeirra nemur 716 milljónum króna. Samtals má því áætla að lán fyrir rétt rúmlega milljarð hafi verið veitt en upphaflega var áætlað að heildarábyrgðir ríkissjóðs yrðu á bilinu 35-50 milljarðar króna. Glugginn til að sækja um slík lán er opinn til áramóta. Þetta er meðal þess sem lesa má úr yfirliti um nýtingu úrræða vegna heimsfaraldurs kórónaveiru.

Einstaklingum í greiðsluhléi hefur fækkað nokkuð eftir því sem liðið hefur á árið. Alls eru nú 1.092 með lán sín í frystingu og nema heildarskuldir hópsins 24 milljörðum króna. Þegar mest lét voru ríflega 4 þúsund með lán sín í greiðsluhléi og heildarskuldirnar 111 milljarðar.

Fyrirtækjum í greiðsluhléi fækkar einnig en þau eru nú 483 talsins. Heildarskuldir þeirra nema 85 milljörðum króna en var þegar mest lét 295 milljarðar króna.

Úr yfirlitinu má lesa að 998 fyrirtæki hafi fengið greidda lokunarstyrki og er samanlögð upphæð þeirra kringum einn milljarð króna. Landsmenn höfðu í upphafi mánaðar tekið út 18,8 milljarða króna af séreignarsparnaði sínum sem er talsvert umfram það sem áætlanir gerðu ráð fyrir. Búist er við því að alls verði 23,5 milljarðar króna greiddir út á grunni úrræðisins fram í mars 2022.

Tæplega 170 þúsund manns hafa sótt sér ferðagjöf stjórnvalda en aðeins 119 þúsund hafa nýtt sér hana. Samanlögð upphæð sem hefur verið nýtt nemur 848 milljónum króna.

Endurgreiðslur virðisaukaskatts nema rúmum tveimur milljörðum króna en stærstur hluti þess er vegna viðhalds eða nýbyggingar íbúðarhúsnæðis, 1,9 milljarðar. Bílaviðgerðir nema 134 milljónum króna og vegna heimilishjálpar og þrifa 76 milljónum króna.

Ríflega þúsund umsóknir um styrk vegna greiðslu launa á uppsagnarfresti hafa borist frá 351 rekstraraðila og nemur heildarupphæð þeirra rúmlega tíu milljörðum. Stærstan hluta þess má rekja til Icelandair.