Dómnefnd á vegum Rannsóknaseturs verslunarinnar á Bifröst hefur komið sér saman um val á jólagjöf ársins 2012. Sagt verður frá niðurstöðunni á næstu dögum en fimm manna dómnefnd kom sér saman um valið á fimmtudag í síðustu viku. Í henni sátu Fríður Birna Stefánsdóttir, stjórnarmaður í VR og starfsmaður CCP, Gunnar Lárus Hjálmarsson (sem er betur þekktur sem Dr. Gunni), Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvarinnar, Hermann Guðmundsson, fyrrum forstjóri N1 olíufélags, og Sævar Kristinsson, framkvæmdastjóri Netspors.

Emil B. Karlsson, forstöðumaður Rannsóknasetursins, var nýkominn af fundi með nefndarmönnum þegar blaðamaður Viðskiptablaðsins ræddi við hann. Á fundinum var endanleg ákvörðun um jólagjöf ársins tekin. „Það er svona með jólin, maður þarf alltaf að bíða spenntur,“ sagði hann þegar blaðamaður reyndi að veiða upp úr honum upplýsingar. Samhliða tilkynningu um jólagjöf ársins kemur út skýrsla þar sem spáð er fyrir um jólaverslunina í ár.

Nánar er fjallað um jólagjöf ársins og val nefndarinnar á síðustu árum í sérblaði sem fylgdi nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.