Í síðustu vaxtaákvörðun ársins ákvað peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum í gær. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 4,25%.

Greiningaraðilar telja líklegt að vaxtalækkunarferli Seðlabankans sé lokið í bili. Stýrivextir hafa verið í lækkunarferli síðan í ágúst 2016. Á þessu ári lækkaði Seðlabankinn stýrivexti í þrígang, úr 5% í 4,25%.

Harðari tónn en verið hefur

Greiningardeild Arion banka birti umfjöllun um vaxtaákvörð­un peningastefnunefndar í gær. Það sem helst vakti athygli deildarinnar var nokkuð harðari tónn í yfirlýsingu nefndarinnar en í síð­ustu ákvörðunum.

Tónninn beinist að miklu leyti að opinberum fjármálum og þætti þeirra í vexti innlendrar eftirspurnar og í framsýnu leiðsögninni. Veltir deildin upp þeirri spurningu hvort að vaxtalækkunarferli Seðlabankans sé lokið. Á kynningarfundi Seðlabankans í gær talaði Már Guðmundsson seðlabankastjóri á þeim nótum að hversu mikið vextir hafa lækkað á síðustu 16 mánuðum hafi ásamt öðru leitt til óbreyttra vaxta í gær.

Ákvörðun peningastefnunefndar um að halda stýrivöxtum óbreyttum var rökstudd með kröftugri hagvexti en spár gerðu ráð fyrir. Þar að auki urðu litlar breytingar á verðbólgu, raunvöxtum, verðbólguvæntingum og á gjaldeyrismarkaði frá síðustu vaxtaákvörðun bankans í nóvember. Frávikið í hagvaxtarspá Seðlabankans skýrist af meiri slaka í fjármálum hins opinbera – aukinni samneyslu og aukningu í opinberum fjárfestingum – en gert hafði verið ráð fyrir.

Þegar ákvörðunin var kynnt hafði fjárlagafrumvarp næsta árs ekki verið kynnt og var vísað til óvissu um stefnuna í fjármálum hins opinbera og niðurstöðu kjarasamninga í ákvörðuninni. Þá eru horfur á að spenna í þjóðarbúskapnum verði áfram umtalsverð. „Það kallar á peningalegt aðhald og meira en ella, slakni á að­haldi í ríkisfjármálum á næsta ári,“ segir í yfirlýsingunni. Ný ríkisstjórn hefur boðað aukin ríkisútgjöld og minni afgang af rekstri ríkissjóðs.

„Ákvörðunin og umræður á kynningarfundi í kjölfar hennar styrkja okkur í þeirri skoðun að peningastefnunefnd telji að lítið svigrúm sé til staðar fyrir frekari vaxtalækkanir að svo stöddu og mögulega ekkert nema óvænt aðhald sé að finna í komandi fjárlögum,“ segir í umfjöllun greiningardeildarinnar.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, telur að Seðlabankinn muni halda vöxtum óbreyttum næstu mánuðina. „Peningastefnunefndin telur núverandi stýrivaxtastig hæfilegt þar sem spenna í þjóðarbúskapnum og hætta á minna aðhaldi opinberra fjármála vegur á móti allgóðum verðbólguhorfum.“

Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur í hagfræðideild Landsbankans, segir að svigrúmið til frekari vaxtalækkana sé verulega takmarkað. „Við teljum að Seðlabankinn eigi eftir að lækka vexti frekar en að svigrúm til frekari vaxtalækkana sé þó verulega takmarkað. Við teljum að verðbólga muni fara örlítið upp fyrir verð­bólgumarkmiðið á næstu árum og það ásamt töluverðri framleiðsluspennu muni koma í veg fyrir frekari lækkanir vaxta.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .