Hjörleifur Kvaran, forstjóri OR, segir það mikið ánægjuefni að stjórn OR hafi komið sér saman um heildarstefnu fyrirtækisins. Það skipti miklu máli fyrir stjórnendur og starfsfólk.

„Það hefur verið vilji stjórnenda hjá fyrirtækinu í langan tíma að fá skýra stefnu frá stjórn fyrirtækisins um hvert það á að stefna. Þess vegna fagna ég því að stefna OR liggi nú fyrir. Þessi tímapunktur núna er líka mikilvægur þar sem fyrirtækið er í erfiðu ytra umhverfi, en þó með sterka stöðu. Í þessu árferði skiptir það sköpum að vera með góða og skýra framtíðarsýn og heildarstefnan hjálpar til við það."

Þegar blaðamaður heimsótti höfuðstöðvar OR var forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, nýbúinn að synja lögum um Icesave staðfestingar. Hjörleifur sagðist hræddur um að synjun forsetans gæti valdið vandræðum í endurreisnarstarfinu.

„Ég held að þetta auki óvissu og tefji mál of mikið, en það er þó erfitt að segja núna," sagði Hjörleifur.

Hann sagði framtíðarmöguleika OR vera mikla og stöðuna sterka, þar sem sjóðsstreymið er gott.

„Við höfum auk þess ekki verið að hækka verð til viðskiptavina og eigum því það inni, ef svo færi að fyrirtækið þyrfti á meiri tekjum að halda til þess að standa við skuldbindingar. Það hefur verið stefna borgarinnar að reyna að hlífa borgurunum gegn hækkunum og við höfum gert þetta líka."

Ítarlegt viðtal er í Viðskiptablaðinu í dag við Guðlaug Sverrisson, stjórnarformann Orkuveitu Reykjavíkur.