„Hann er búinn að segja af sér og þar með er þessu máli lokið," segir Ragnar Arnalds, varaformaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, um málefni Magnúsar Árna Skúlasonar hagfræðings.

Málefni Magnúsar Árna voru rædd á fundi bankaráðs í gær.

Tilefnið var frétt Morgunblaðsins um að hann hefði haft samband við Össur og Actavis fyrir rúmum tveimur vikum til að bjóða þeim þjónustu breska miðlarafyrirtækisins Schneider um viðskipti með gjaldeyri erlendis og fá afhentar krónur hér á landi á móti.

Ekki náðist í Magnús Árna við vinnslu þessarar fréttar en Ragnar segir að hann hafi á bankaráðsfundinum útskýrt sín sjónarmið. Bankaráð hafi ekki tekið neina afstöðu enda sé Magnús Árni búinn að lýsa því yfir að hann ætli að víkja úr ráðinu.

Ingibjörg Ingadóttir varamaður í ráðinu tekur sæti í hans stað. Alþingi mun svo væntanlega kjósa nýjan aðalmann þegar það kemur saman að nýju í október.

Gegn markmiðum gjaldeyrishaftanna

Magnús Árni var kjörinn af Alþingi í bankaráðið hinn 11. ágúst. Hann var tilnefndur af Framsóknarflokknum.

Ekki náðist í Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins, við vinnslu þessarar fréttar. Aðstoðarmaður hans segir að hann sé nú staddur í Kanada.

Magnús Árni sagði í yfirlýsingu um helgina að Schneider hefði haft samband við sig að fyrra bragði og að ekkert ólöglegt hefði átt sér stað. Í ljósi þess hins vegar að störf sín hefðu nú opinberlega verið tortryggð með ómaklegum hætti hefði hann ákveðið að óska eftir því að biðjast lausnar.

Össur og Actavis eru sem kunnugt er í hópi þeirra fyrirtækja sem eru með undanþágu frá gjaldeyrishöftunum vegna þess að meiri hluti tekna þeirra er í erlendum gjaldeyri. Fram kom í fjölmiðlum og m.a. í Viðskiptablaðinu í sumar að Össur og tvö álfyrirtæki, sem einnig eru með undanþágur, nýttu sér hluta tekna sinna til að kaupa krónur erlendis á hagstæðara gengi og greiða kostnað hér heima.

Seðlabankinn fór fram á það við fyrirtækin fyrr í sumar að þau létu af slíkum viðskiptum - þrátt fyrir að þau væru ekki ólögleg. Slík viðskipti ynnu gegn markmiðum gjaldeyrishaftanna.

Magnús Árni sagði í samtali við Ríkisútvarpið um helgina að honum hefði ekki verið kunnugt um fyrrgreinda málaleitan Seðlabanbankans.