*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 12. febrúar 2017 09:02

„Búinn að vera í þessum bransa í 40 ár“

Múlakaffi þjónustar alls kyns viðburði og segir Jóhannes Stefánsson eigandi að það sé langt frá því að vera verkefnaskortur hjá fyrirtækinu.

Pétur Gunnarsson
Allt á fullu í eldhúsinu hjá Múlakaffi.
Haraldur Guðjónsson

Múlakaffi hefur verið starfrækt frá árinu 1962 og var stofnað af Stefáni Ólafssyni. Sonur hans, Jóhannes Stef- ánsson, tók síðar við fyrirtækinu af föður sínum. Jóhannes hefur starfað sem matreiðslumaður í rúm 40 ár eða frá 16 ára aldri og þekkir veisluþjónustubransann gífurlega vel. „Ég er búinn að vera í þessum bransa í 40 ár. Þetta eru í raun engin geimvísindi, það þarf að vera á vaktinni alla daga,“ segir Jóhannes.

Jóhannes segir að þau hjá Múlakaffi finni fyrir talsverðri aukningu í viðskiptum milli ára. „Árið 2016 var virkilega gott. Það er ekki hægt að segja annað. Það var gífurleg aukning í veisluþjónustu á árinu,“ segir Jóhannes. Spurður hvort almenn uppsveifla í efnahagslífinu hafi haft jákvæð áhrif á reksturinn segir Jóhannes að það hafi ekkert eyðilagt fyrir.

Hann segir að Múlakaffi þjónusti alla viðskiptavini milli himins og jarðar. „Þetta er öll flóran eins og hún leggur sig. Þeir koma alltaf svona í bland. Þetta eru allt góðar veislur, þó þær séu misjafnlega stórar. Stundum eru þær stærri eins og gengur og gerist, en það þarf að sinna minni veislunum líka. Við erum jafn sterkir þar. Þó að þetta sé gjörólíkt, þá er þetta allt þjónusta sem við veitum, frá því að fara í heimahús og og sjá um litlar veislur hjá fyrirtækjum og upp í stórar veislur,“ segir Jóhannes.

Jóhannes segir galdurinn við það að halda góða veislu sé að vera vel skipulagður og hafa gott fólk með sér. „Þetta eru mörg atriði sem styðja hvert annað, það þarf að vera stöðugleiki í þessu og fólk þarf að geta treyst þér, treyst því að það fái góða veislu hjá þér.“ 

Stikkorð: Múlakaffi ráðstefnur bransinn