FL Group mun halda áfram að fjárfesta í skráðum dönskum fyrirtækjum, segir Jacob Pedersen, sérfræðingur hjá danska bankanum Sydbank, í samtali við viðskiptablaðið Finans Nyheder.

Í síðustu viku keypti FL Group 10,7% hlut í danska bjórframleiðandanum Royal Unibrew og 8,2% hlut í danska raftækjaframleiðandanum Bang & Olufsen.

Kaup FL Group í félögunum varð til hækkunar á gengi bréfanna. Lars Topholm, sérfræðingur hjá sænska bankanum Carnegie, sem er að hluta til í eigu Landsbankans, sagði í janúar að bréf í B&O væru undirverðlögð. Í kjölfar kaupa FL Group í B&O hækkaði gengið í 743 danskar krónur úr 724 krónum.

Sérfræðingar á dönskum hlutabréfamarkaði búast við að FL Group muni auka hlut sinn í B&O á næstunni og að eignarhlutur félagins fari yfir 10%.