Júlíus Vífill Ingvarsson, formaður stjórnar Faxaflóahafna sf. og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, segist vonast til að borgarráð samþykki fyrir sitt leyti á fundi á fimmtudag áætlanir um áframhaldandi uppbyggingu Tónlistarhússins við Reykjavíkurhöfn. Í stórum dráttum miðar hún við að Austurhöfn –TR eða öllu heldur ríki og borg taki yfir byggingu Tónlistarhússins. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra hefur einnig sagst vera því hlynnt að ljúka byggingu hússins.

„Þetta er þó háð fyrirvara um að hægt verði að ljúka fjármögnun verkefnisins, en Landsbankinn mun vonandi verða okkur innan handar með það,” segir Júlíus. Hann staðfestir að um 13 milljarða vanti til að ljúka byggingu hússins.

„Þetta hefur verið unnið eins hratt og framast er kostur með það í huga að hægt verði að halda þessu áfram án þess að til uppsagna þurfi að koma hjá Íslenskum aðalverktökum. Einnig án þess að það þurfi að rekja upp samninga sem gerðir hafa vegna byggingar hússins við ÍAV og aðra birgja og setjast við samningaborðið að nýju.”

Júlíus segir að miðað við áætlanir Austurhafnar sé nú reiknað með að húsið verði fullbúið á fyrri hluta árs 2011.