Danske Bank tapaði 828 milljónum danskra króna á öðrum fjórðungi, en á sama fjórðungi í fyrra var hagnaðurinn 3,2 milljarðar. Hagnaður var á fyrsta fjórðungi þessa árs þannig að hagnaður Danske Bank á fyrri hluta ársins nam 0,7 milljónum danskra króna, sem er í meginatriðum eins og við var búist og viðunandi miðað við erfiðar efnahagsaðstæður, segir í uppgjörstilkynningu frá bankanum.

Erfiðar efnahagsaðstæður hafa orðið til þess að afskriftir útlána hafa orðið mjög miklar og nema 14,5 milljörðum danskra króna. Afskriftir fóru þó minnkandi eftir því sem leið á tímabilið og voru minni en á fjórða fjórðungi í fyrra. Í tilkynningunni segir að síðari helmingur ársins ráðist aðallega af efnahagsaðstæðum. Vegna efnahagsþróunarinnar almennt geri bankinn ráð fyrir áframhaldandi miklum afskriftum útlána.

Þó er í tilkynningu haft eftir Peter Straarup, forstjóra, að upp á síðkastið hafi verið vísbendingar um að hagkerfið sé að ná stöðugleika, en vísbendingar séu þó ekki allar í sömu átt.