Gert er ráð fyrir að Tom Hunter, einn þekktasti athafnamaður Bretlands á sviði smásölu, geri yfirtökutilboð í breska blómarisann Wyevale Garden Centres í vikunni.

Hunter, sem hefur tekið þátt í ýmsum fjárfestingum með Baugi svo sem í Big Food Group, House of Fraser og fasteignafélaginu LXB, keypti nýverið 14,99% hlut í félaginu og hefur tryggt sér tæplega 14% til viðbótar. Hann hefur undanfarið gert kostgæfnisathugun á félaginu.

Af ágiskunum breskra sérfræðinga að dæma gæti tilboð Hunters í Wyevale, sem er stærsta blóma- og garðvörukeðja Bretlands, falið í sér að heildarverðmæti félagsins væri um 330 milljónir punda (44,2 milljarðar króna).

Hart hefur verið barist um yfirráð í félaginu. Laxey Partners, sem nú hafa selt Hunter sinn hlut, keyptu sig inn í félagið fyrir ári og hafa hrundið af stað umfangsmikilli endurskipulagningu sem miðar að því að spara um 200 milljónir króna í rekstri. Einnig var nýlega ákveðið að selja 31 af minni verslunum félagsins og leggja þannig höfuðáherslu á þær stærri.

Laxey Partners keyptu á 430 pens á hlut en verðið bréfanna hefur undanfarið verið yfir 500 og talið að Hunter gæti boðið allt að 600.